miðvikudagur, 7. nóvember 2007

Hugrenningar

Strompur litli leiður er
fastur í eigin kreppu
reykurinn áfram niður fer
kominn með andarteppu!

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Niðurstaða

Eitt er víst að alltaf verður baráttan við reykingar!

föstudagur, 2. nóvember 2007

Strompur 2. hluti

Núna er Strompur litli rámur og sótugur að innan. Hann vaknar svo til á hverjum morgni dapur í bragði því allir hinir stromparnir eru orðnir svo hreinir og fínir með sig því þeir menga ekki lengur loftið. Hann er svo leiður og óánægður með sig því hann er búinn að gera allt það sem í valdi hans stendur til að reyna að hætta að vera skítugur og stíflaður. Hann er búinn að lesa bækur, prófa plástra og meira að segja fara á námskeið. En allt kemur fyrir ekki. Nú eru góð ráð dýr, því jólin nálgast og Strompur vill láta sitt af mörkum með því leyfa jólasveininum að komast í gegn um sig með alla jólapakkana fyrir krakkana. Ekki vill hann heldur lenda í jólakettinum! Hvað hann gerir - vandi er um slíkt að spá!

miðvikudagur, 31. október 2007

Strompur

Einu sinni var strompur, sem hét Strompur, sem vildi ekki láta þrífa sig. Hann sat á húsþaki í Vesturbænum. Strompur man fífil sinn fegurri, þegar hann lék á alls oddi með hreinan og ómengaðan reykháf. Þá gat hann spjallað og hlegið með strompunum á næstu húsþökum án þess að hósta. Hann söng líka svo fallega að hann laðaði að sér alla fuglana, sem vildu ólmir tylla sér ofan á hann. Þá sungu þeir með og dilluðu stélunum í takt við sönginn. Já, hann var sannkallaður söngstrompur.